Rodrigo Duterte, fyrrum forseti Filippseyja, var í dag kjörinn borgarstjóri í borginni Davao í heimalandi sínu. Óljóst er hvernig fyrrum forsetinn mun geta beitt völdum sínum í borginni í ljósi þess að hann er í gæsluvarðhaldi hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag.
Kosið var til borgarstjóra í borginni í dag og vann Duterte stórsigur. Hlaut Duterte 405.000 atkvæði á meðan helsti keppinautur hans hlaut aðeins 49.000 atkvæði.
Duterte, sem er 80 ára gamall, var í marsmánuði handtekinn í Manila, höfuðborg Filippseyja, eftir að Alþjóðlegi sakamáladómstólinn gaf út handtökuskipun á hendur honum. Hann er sakaður um glæpi gegn mannkyninu.
Sara Duterte, dóttir Rodrigo Duterte og fráfarandi varaforseti Filippseyja, segir að lögfræðingar föður síns séu að vinna að því að Duterte geti skrifað undir drengskaparheit og í kjölfarið tekið við borgarstjóraembættinu í Davao-borg frá fangaklefa sínum í Haag.
Eins og áður segir er Duterte sakaður um glæpi gegn mannkyninu. Að sögn Filippseyskra stjórnvalda voru meira en sex þúsund almennra borgara teknir af lífi án dóms og laga í kjölfar stríðs Duterte gegn ólöglegum fíkniefnum á meðan Duterte gegndi embætti forseta í landinu frá 2016-2022.