Trump: Ég myndi aldrei hafna slíku tilboði

Almenningur fylgist með útsendingu frá komu Trumps til Sádí-Arabíu í …
Almenningur fylgist með útsendingu frá komu Trumps til Sádí-Arabíu í dag. AFP/Guiseppe Cacace

Donald Trump Bandaríkjaforseti er lentur í Sádí-Arabíu hvar nokkurra daga ferðalag hans um Persaflóa hefst.

Trump mun á ferðalagi sínu heimsækja Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin en ferðin er fyrsta stóra ferð Bandaríkjaforsetans síðan hann tók aftur við völdum í Hvíta húsinu.

Air Force One var fylgt af F-15 orrustuþotum Sáda síðasta spölinn til Riyadh.

Fyrir átta árum síðan kaus Trump einnig að fara í sína fyrstu opinberu heimsókn í embætti til Sádí-Arabíu.

Í Sádí-Arabíu mun Trump sitja leiðtogafund leiðtoga ríkjanna við Persaflóa áður en hann fer yfir til Katar.

Karoline Leavitt, talsmaður Hvítahússins, hefur einnig sagt að Trump muni kynna sýn þar sem öfgar verði lagðar til hliðar og viðskipti og verslun tekin upp sem og aukin menningarsamskipti.

Áhersla á viðskipti

Aðaláhersla Trumps á Persaflóaferðalaginu mun þó líklega vera á viðskipti, að því er heimildarmenn innan Hvíta hússins hafa gefið í skyn.

Persaflóaríkin hafa staðsett sig sem alþjóðleg lykilríki fyrsta misseri Trumps í embætti þar sem Katarar hafa haft milligöngu um samninga milli Hamas-hryðjuverkasamtakanna og Ísraels og Sádí-Arabía hefur haft milligöngu um samtöl í tengslum við innrásarstríð Rússa í Úkraínu.

Krónprins Sádí-Arabíu, Mohammed bin Salman, er sagður vilja leggja 600 milljarða bandaríkjadala í viðskipti og fjárfestingar í Bandaríkjunum en Trump segist ætla að leggja til að milljarðarnir verði 1.000.

„Ég held að þeir geri það því við höfum verið mjög góð við þá,“ sagði Trump.

Embættismaður í Sádí-Arabíu sem er vel tengdur varnarmálaráðuneytinu þar, segir að Sádar muni þrýsta á að fá nýjustu bandarísku F-35 orrustuþoturnar ásamt nýjasta og fullkomnasta varnarkerfi sem völ er á og er milljarða dollara virði.

„Við munum setja það skilyrði að afhending verði á meðan Trump er við völd,“ sagði embættismaðurinn.

Umdeild áform Trumps um að þiggja einkaþotu frá konungsfjölskyldunni í Katar hafa verið í umræðunni en Trump hefur sjálfur kallað samninginn mjög opinberan og gagnsæjan.

„Ég myndi aldrei hafna slíku tilboði,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert