Bandaríkin og Sádí-Arabía undirrituðu umfangsmikinn vopnasamning í dag sem Hvíta húsið kallaði þann stærsta „í sögunni“ samhliða fjölda annarra samninga.
„Bandaríkin og Sádi-Arabía undirrituðu stærsta varnarmálasamning sögunnar - upp á 142 milljarða dollara, sem veitir Sádi-Arabíu nýjustu tækni í hernaðarbúnaði,“ sagði í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti naut konunglegra móttakna í fyrstu erlendu heimsókn sinni á sínu öðru kjörtímabili.
Sádar fylgdu einkaþotu Trumps inn í konungsríkið með orrustuþotum og á jörðu niðri var riddaralið sem fylgdi Trump að konungshöllinni.
Undir tignarlegum ljósakrónum og málverkum fagnaði Trump loforði Mohamed bin Salman, krónprins og leiðtoga Sádí-Arabíu, um 600 milljarða dala fjárfestingu og glotti með að það ætti frekar að vera ein billjón dollara.
Konungsfólk og viðskiptaleiðtogar biðu eftir Trump, þar á meðal Elon Musk, ríkasti maður heims og nánasti ráðgjafi Trump.
„Við erum með stærstu viðskiptaleiðtoga heims hér í dag og þeir ætla að fara héðan með margar ávísanir,” sagði Trump við prinsinn.
„Fyrir Bandaríkin er líklega um að ræða tvö milljón störf,“ bætti hann við.
Trump, krónprinsinn og ráðherrar undirrituðu síðan formlega röð samstarfssamninga, meðal annars um efnahags- og varnartengsl.
Síðan Jamal Khashoggi var myrtur á hrottalegan hátt hefur Sádí-Arabía unnið að því að breyta ímynd sinni. Khashoggi var bandarískur blaðamaður og gagnrýnandi ríkisstjórnar Saudí-Arabíu. Morðið hlaut mikla gagnrýni Biden, fyrrum forseta Bandaríkjanna.
Landið hefur í auknum mæli beitt diplómatískum áhrifum sínum og þjónað sem vettvangur fyrir Bandaríkin til að stunda viðræður við Úkraínu og Rússland.
Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa einnig leitast við að gegna stærra alþjóðlegu hlutverki, þar sem Katarar hafa leitast eftir því að vera samningsaðilar ásamt Bandaríkjunum og Egyptalandi í átökum Ísraels og Palestínu.
Seinna í vikunni mun forsetinn heimsækja Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin, olíurík einveldi í Persaflóanum með langa sögu samstarfs við Bandaríkin.
Trump valdi einnig fyrir átta árum Persaflóann sem sína fyrstu ferð erlendis sem forseti. Með því að velja Persaflóann forðast Trump að sniðganga hefðbundnar forsetaheimsóknir til vestrænna bandamanna, sem hefur valdið óróleika á meðal margra.