Enn óvíst hvort Pútín mæti til friðarviðræðna

Selenskí hefur sagt að hann muni bíða eftir Pútín í …
Selenskí hefur sagt að hann muni bíða eftir Pútín í Istanbúl. AFP/Photo by Gavriil Gricorov and Nhac Nguyen

Enn er óvíst hvort Vladimír Pútín Rússlandsforseti komi til með að mæta til friðarviðræðna við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Istanbúl í Tyrklandi á morgun, fimmtudag, eins og vonir hafa staðið til. The Guardian segir frá.

Selenskí hefur hins vegar staðfest að hann muni mæta og bíða eftir Pútín í eigin persónu.

Stjórnvöld í Kreml hafa neitað að gefa upp hvort Pútín fari til Tyrklands á morgun eða veita upplýsingar um hver muni fara fyrir rússnesku sendinefndinni í mögulegum friðarviðræðum. 

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, sagði við blaðamenn í Moskvu í dag að ekki yrði tilkynnt hverjir skipi sendinefndina fyrr en forsetinn hafi gefið viðeigandi fyrirmæli.

Trump íhugar að vera viðstaddur

Það var Pútín sjálfur sem lagði það til í ræðu á sunnudag að beinar samningaviðræður yrðu haldnar á milli Rússlands og Úkraínu í Istanbúl á næstu dögum. 

Selenskí þáði fundarboðið nokkuð fljótt en sagðist engu að síður vera að bíða eftir varanlegu vopnahléi sem hefði átt að hefjast á mánudag.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann íhugi að fljúga til Tyrklands til að vera viðstaddur fund Pútín og Selenskí ef hann telji líkur á að eitthvað gerist, eins og hann orðaði það.

Selenskí vill endilega að Trump verði viðstaddur, en Pútín hefur ekkert gefið út um hvernig það horfir við honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert