Fara fram á tveggja og hálfs árs dóm yfir Gjert

Bræðurnir hafa ekki talað við föður sinn í nokkur ár.
Bræðurnir hafa ekki talað við föður sinn í nokkur ár. Samsett mynd/AFP/Ane Hem/Lise Aserud

Norskur saksóknari fer fram á tveggja og hálfs árs fangelsi yfir norska hlaupaþjálfaranum Gjert Ingebrigtsen, föður Ingebrigtsen-hlaupasystkinnanna og fyrrverandi þjálfara þeirra. Gjert er ákærður fyrir að hafa beitt Jakob, yngsta bróðurnum, og Ingrid systur þeirra líkamlegu og andlegu ofbeldi í áraraðir. 

Réttarhöld í málinu hafa staðið yfir síðan í lok marsmánaðar og er von á að þeim ljúki í þessari viku. Jakob bar vitni í málinu í apríl þar sem hann lýsti meintu ofbeldi föður síns en feðgarnir hafa ekki talað saman í nokkur ár eða frá því að bræðurnir sögðu föður sínum upp sem þjálfara.

Gjert hefur neitað sök í málinu. 

Ofbeldið í garð yngstu systurinnar fyllti mælinn

Bræðurnir þrír hafa allir átt gott gengi í hlaupaheiminum síðustu ár en Jakob er Ólympíu- og heimsmethafi í millivegalengdahlaupum. 

Jakob lýsti því fyrir dómi í apríl að faðir hans hafi beitt hann miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi í æsku. Annar bróðir, Kristoffer Ingebrigtsen, lýsti því að hann hafi upplifað mikinn ótta við föður sinn í æsku. 

Bræðurnir hafa allir náð góðum árangri í hlaupaheiminum.
Bræðurnir hafa allir náð góðum árangri í hlaupaheiminum. AFP

Kornið sem fyllti mælinn hjá bræðrunum og varð til þess að þeir stigu fram og opinberuðu ofbeldi föður síns var meint ofbeldi Gjert í garð Ingridar, systur bræðranna. Er hann sakaður um að hafa slegið hana í bringuna með blautu handklæði í ársbyrjun 2022. 

Ingrid hefur ekki búið á heimili foreldra sinna eftir atvikið og hefur sagst ætla slíta á öll samskipti við móður sína taki hún afstöðu með Gjert en hún hefur hingað til stutt eiginmann sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert