Hælisleitendum í Bretlandi hefur fjölgað allverulega síðastliðin ár. Umsækjendur um hæli í Bretlandi voru 84.200 árið 2024 en þeir voru að meðaltali 27.500 á árunum 2011 til 2020.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, kynnti fyrr í dag að hafnar væru formlegar viðræður við önnur ríki um að taka við þeim umsækjendum um hæli sem þegar hefðu fengið synjun á umsókn sinni í Bretlandi.
Stefna Starmers í útlendingamálum hefur breyst síðastliðna daga en hann tilkynnti í upphafi vikunnar að tilraun Breta með opin landamæri væri lokið. Hann telur nú að Bretland gæti orðið að „eyju ókunnugra“ ef útlendingalöggjöf verður ekki hert strax.
Þrátt fyrir að hælisleitendum hafi fjölgað umtalsvert eru þeir samt sem áður ekki nema 11% af öllum innflytjendum í Bretlandi árið 2024. Hlutfallið hefur þó hækkað um nær helming á fimm árum en árið 2019 var prósentan sex prósent.
Mikill fjöldi þeirra sem sækja um hæli í Bretlandi kemur til landsins yfir Ermarsundið frá Frakklandi á litlum bátum. Á árunum 2018 til 2024 er talið að 148.000 manns hafi náð til stranda Bretlands á þennan hátt en af þeim sóttu nær allir um hæli, eða 95%.
Flestir þeirra sem sækja um hæli í Bretlandi koma frá Pakistan og Afganistan.
Útlendingamál eru í brennidepli í Bretlandi og hefur það haft áhrif á hið pólitíska landslag, til að mynda hefur fylgi Umbótaflokksins aukist verulega og vann flokkurinn vel á keppinauta sína í nýafstöðnum sveitastjórnarkosningum.