Tjón á átta byggingum eftir sprengingu

Átta byggingar urðu fyrir tjóni í sprengingunni í gærkvöldi.
Átta byggingar urðu fyrir tjóni í sprengingunni í gærkvöldi. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir SVT

Átta byggingar eru skemmdar eftir öfluga sprengingu í íbúðahverfi í Järfälla norður af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi um klukkan 22 að staðartíma í gærkvöldi og þótti mesta mildi aðenginn haut líkamstjón af, en fjöldi glugga brotnaði í byggingunum sem fyrir tjóninu urðu.

Daniel Wikdahl, sem ræddi við sænska ríkisútvarpið SVT í morgun fyrir hönd lögreglunnar á Stokkhólmssvæðinu, kvað tjónið á byggingunum mismunandi í eðli sínu og í verstu tilfellum hefði sjálf umgjörðin, það er ytra byrði bygginganna, gengið úr skorðum.

Treysti hann sér ekki til þess að svara því hvort óhætt væri að búa áfram í sumum bygginganna, en lögreglan hafði gríðarlegan viðbúnað í hverfinu, sem Skälby heitir, í kjölfar atburðarins.

Á vettvangi í allan dag

„Við höfum glögga hugmynd um hvað það var sem sprakk, en það er ekkert sem við ætlum að tjá okkur um,“ sagði Wikdahl enn fremur.

Var lögregla á vettvangi í allan dag til að tryggja öryggi á svæðinu auk þess að ræða við íbúana, en enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins sem nú er rannsakað sem skemmdarverk með almannahættu í för með sér auk brots á lögum um meðferð eld- og sprengifimra efna.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert