Að minnsta kosti 50 drepnir í nótt

Frá borginni Bait Lahia í norðurhluta Gasa í nótt.
Frá borginni Bait Lahia í norðurhluta Gasa í nótt. AFP

Að minnsta kosti 50 manns hafa verið drepnir á Gasasvæðinu frá því í gærkvöldi í árásum Ísraela. Tugir eru særðir, þar af eru konur og börn í meirihluta.

Að sögn almannavarna á svæðinu hafa árásir verið gerðar á íbúðarhús á norðanverðu Gasasvæðinu frá miðnætti að staðartíma, eða klukkan 21 að íslenskum tíma.

Loftárásir og drónaárásir

Mohammed Saleh, framkvæmdastjóri Al-Awda-sjúkrahússins í borginni Jabalia, segir sjúkrahúsið hafa tekið á móti 75 særðum í nótt sökum loftárása.

Íbúi í borginni Bait Lahia tjáði AFP-fréttaveitunni að íbúðarhúsið við hlið hans hefði verið sprengt upp af ísraelska hernum meðan íbúar voru inni. Þá hefðu einnig verið gerðar árásir með drónum.

„Mikið af fólki er að svelta“

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig lítillega um Gasasvæðið við blaðamenn í nótt en hann er nú á ferðalagi um Persaflóaríkin.

Sagði Trump að Bandaríkin myndu „sjá um“ ástandið á svæðinu.

„Mikið af fólki er að svelta,“ bætti Bandaríkjaforsetinn við og vísaði þar til þess að tveir mánuðir eru síðan Ísraelar hleyptu neyðarvistum inn í Gasa.

Þá hefur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sagt að landbúnaður á Gasa sé að hruni kominn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin muni „sjá um“ ástandið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin muni „sjá um“ ástandið á Gasasvæðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert