Sendinefndir frá Rússlandi og Úkraínu eru mættar til Istanbul í Tyrklandi til friðarviðræðna sem verður fyrsti beini fundur ríkjanna frá því átökin hófust í Úkraínu fyrir rúmum þremur árum.
Vegna fjarveru Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta ríkir lítil bjartsýni um að friðarviðræðurnar skili árangri og þá mun Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ekki taka beinan þátt í viðræðunum.
„Ég vil vera hreinskilinn. Við höfum ekki miklar væntingar um hvað gerist á fundinum,“ sagði Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem kom til Istanbul í morgun. Ekki er búist við því að Rubio taki þátt í viðræðunum en hann segir að bandarískir embættismenn muni halda fundi með Úkraínumönnum og Rússum í dag.
Selenskí segist ekki búast við því að viðræðurnar skili einhverjum árangri en hann hefur sakað stjórnvöld í Rússlandi um þeim sé ekki alvara um að binda enda á stríðið.
Pútin lagði í síðustu viku til að haldnar yrðu beinar samningaviðræður en neitaði að svara þegar Selenskí skoraði á að hann mæta í eigin persónu á fundinn.
Rússneska sendinefndin sem er komin til Istanbul er undir forystu Vladimírs Mekinski, eins helsta ráðgjafa Pútíns, en sendinefnd Úkraínu er undir forystu Rutem Umerov varnarmálaráðherra landsins.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þrýst mjög á Rússa og Úkraínumenn í átt að friðarsamkomulagi og hann sagði við fréttamenn í gær að hann héldum opnum þeim möguleika á að mæta til Istanbul ef það yrðu marktækar framfarir í viðræðunum.