Friðarfundi slitið í Istanbúl

Frá fundinum í dag. Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, er hér …
Frá fundinum í dag. Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, er hér fyrir miðju. Sendinefnd Úkraínu er til vinstri og sú rússneska til hægri. AFP/Utanríkisráðuneyti Tyrklands

Fundi Úkraínumanna og Rússa í Istanbúl á Tyrklandi er lokið. Var um að ræða fyrstu beinu friðarviðræðurnar á milli ríkjanna í meira en þrjú ár.

Fundurinn hófst um klukkan 10.40 í morgun og lauk 90 mínútum síðar.

Mögulegt er að annar fundur verði haldinn í dag en hann er ekki á dagskrá, að því er AFP-fréttaveitan hefur eftir heimildarmanni sínum sem er háttsettur úkraínskur embættismaður að sögn.

„Ef þeir fá aðrar leiðbeiningar frá Moskvu, þá er mögulegt að eitthvað gerist í dag,“ sagði heimildarmaðurinn eftir að viðræðunum lauk og bætti við að eins og er væri ekki búið að skipuleggja annan fund.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á fundi hins póli­tíska banda­lags Evr­ópu­ríkja (e. …
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á fundi hins póli­tíska banda­lags Evr­ópu­ríkja (e. Europe­an Political Comm­unity eða EPC) í Tírana í Albaníu í dag. AFP/Ludovic Marin

Vill refsa Rússum ef viðræður skila ekki árangri

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur kallað eftir öflugum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússlandi, þar á meðal nýjum þvingunaraðgerðum, ef friðarviðræðurnar í Istanbúl skila ekki árangri.

„Við höfðum raunverulegt tækifæri til að taka mikilvæg skref í átt að því að binda enda á þetta stríð ef aðeins Pútín hefði ekki verið hræddur við að koma til Tyrklands,“ sagði Selenskí við evrópska leiðtoga sem voru saman komnir í Tírana í Albaníu í dag.

„Ef í ljós kemur að rússneska sendinefndin er í raun bara til sýnis og getur ekki skilað neinum árangri í dag... þurfa að verða öflug viðbrögð, þar á meðal þvingunaraðgerðir gegn orkugeira Rússlands og bönkum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert