Friðarfundur Rússa og Úkraínumanna er hafinn í Istanbúl. Um er að ræða fyrstu beinu viðræðurnar milli ríkjanna í meira en þrjú ár en ekki eru miklar væntingar um að viðræðurnar muni bera árangur.
Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, setti fundinn klukkan 10:35 að íslenskum tíma.
Sendinefndir ríkjanna mættu til Istanbúl í gær en hvorki Vladimír Pútín Rússlandsforseti né Volodimír Selenskí Úkraínuforseti koma að viðræðunum með beinum hætti.
Mun sendinefnd Úkraínu leitast eftir að fá í gegn skilyrðislaust vopnahlé í stríði ríkjanna. Vilja Rússar hins vegar reyna að endurvekja misheppnaðar samningaviðræður frá 2022 þar sem gerðar voru víðtækar kröfur um landsvæði Úkraínu.
Eins og fyrr segir eru litlar væntingar um árangur. Undanfarinn sólarhring hefur Selenskí gagnrýnt Rússa sem hann segir ekki hafa raunverulegan áhuga á friði, en greint hefur verið frá að sendinefnd þeirra samanstandi af lágtsettum diplómötum.
Á sama tíma hafa Rússar kallað Selenskí „trúð“ og „aumkunarverðan einstakling.“
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þrýst mjög á ríkin í átt að friðarsamkomulagi og sagði við fréttamenn í gær að hann héldi opnum þeim möguleika á að mæta til Istanbúl ef það yrðu marktækar framfarir í viðræðunum.