Sænski diplómatinn fannst látinn

Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir sænsku ríkisstjórnina.
Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir sænsku ríkisstjórnina. Ljósmynd/Colourbox

Sænskur stjórnarerindreki sem handtekinn var fyrir skemmstu vegna gruns um njósnir og óleyfilega meðferð á leynilegum upplýsingum úr sænska utanríkisráðuneytinu fannst látinn nú fyrr í dag.

Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT. Samkvæmt upplýsingum ríkismiðilsins tengist rannsókn öryggislögreglunnar þó skyndilegri afsögn þjóðaröryggisráðgjafans Tobias Thyberg fyrr í þessum mánuði, en hann sagði af sér eftir aðeins hálfan dag í starfi eftir að sænskur slúðurmiðill komst yfir viðkvæmt myndefni af gamalli stefnumótasíðu hans.

Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir sænsku ríkisstjórnina, en að sögn njósnasérfræðings sem sænska dagblaðið Dagens nyheder ræddi við voru miklar líkur á að myndirnar kæmust í hendur erlendra valdaafla, sem gætu hugsanlega notfært þær til kúgunar.

Samstarfsfólk í áfalli

Erindrekinn var handtekinn í aðgerð sænsku öryggislögreglunnar (Säpo) á heimili hans á sunnudaginn var, en honum var síðar sleppt úr haldi. Rannsókn lögreglunnar á manninum stóð enn yfir, en að sögn yfirvalda í Svíþjóð er ekkert sem bendir til þess að andlátið hafi borið til með saknæmum hætti.

Í frétt SVT um málið er haft eftir innanbúðarmanni í sænska utanríkisráðuneytinu að fyrrum samstarfsmenn mannsins séu harmi slegnir yfir tíðindunum, en maðurinn hafði lengi starfað innan ráðuneytisins auk þess að hafa verið staðsettur í nokkrum sendiráðum víðs vegar um heiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert