„Slæmur og hættulegur dagur fyrir Bandaríkin“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

„Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfir mér ekki að gera það sem ég var kosinn til að gera. Þetta er slæmur og hættulegur dagur fyrir Bandaríkin,“ skrifaði Donald Trump Bandaríkjaforseti í færslu á eigin samfélagsmiðli í dag.

Tilefnið er úrskurður Hæstaréttar Bandaríkjanna þess efnis að Trump sé óheimilt að hefja aftur brottvísanir meintra meðlima venesúelska glæpagengisins Tren de Aragua (TdA).

Trump hefur staðið í stöðugum deilum við dómsstóla í Bandaríkjunum allt frá því hann sneri aftur í Hvíta húsið og hefur látið í ljós reiði sína yfir fjölmörgum dómsúrskurðum á ýmsum stigum dómskerfisins sem margir hverjir hafa komið í veg fyrir framgöngu forsetatilskipana hans í ýmsum málum

Fengu ekki nægan tíma til að andmæla

Í úrskurðinum sem Trump vísar í á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, kom íhaldssamur meirihluti hæstaréttar Bandaríkjanna, þar á meðal þrír dómarar sem Trump tilnefndi sjálfur, í veg fyrir tilraun hans til að nota lagasetningu frá árinu 1798, svokallað Alien Enemies Act, til að framkvæma frekari brottvísanir venesúelamönnum.

Í úrskurði sínum sagði dómstóllinn að þeim sem ætti að brottvísa væri ekki gefinn nægur tími til að andmæla brottvísun sinni með löglegum hætti.

Trump, sem lofaði í kosningabaráttu sinni að vísa milljónum ólöglegra innflytjenda úr landi, sagði að ákvörðun Hæstaréttar þýddi að stjórnvöld þyrftu að fara í gegnum „langt, flókið og dýrt lagaferli“ til að vísa „morðingjum, eiturlyfjasölum og meðlimum glæpagengja“ úr landi.

Ekki meðlimir glæpagengja

Trump beitti lagaákvæðinu frá 1798, sem var síðast notað til að handtaka japansk-bandaríska borgara í seinni heimsstyrjöldinni, í mars til að vísa fyrsta hópi meintra TdA meðlima í alræmt fangelsi í El Salvador án tilhlýðilegrar málsmeðferðar.

Lögfræðingar nokkurra þeirra Venesúelabúa sem brottvísað var hafa sagt að skjólstæðingar þeirra hafi ekki verið meðlimir glæpagengja, hafi ekki framið nein afbrot og hafi aðallega verið handteknir vegna húðflúra sinna.

Hæstiréttur greip inn í 19. apríl og stöðvaði tímabundið frekari brottvísanir ólöglegra venesúelskra innflytjenda og gaf út að þeim yrði að veita réttláta málsmeðferð.

Í úrskurði dagsins stöðvaði dómstóllinn svo áform um að vísa öðrum hópi fanga sem haldið er í Texas úr landi og sagði að þeim væri ekki gefinn nægur tími til að leggja fram marktæk mótmæli gegn brottvísun sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert