Trump: Fólk á Gasa er að svelta

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir fólk á Gasa vera að svelta.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir fólk á Gasa vera að svelta. AFP/Jim Watson

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að mikill fjöldi fólks á Gasa-ströndinni sé að svelta.

Þetta sagði Trump í samtali við blaðamenn í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum  fyrr í dag. 

Trump hefur síðastliðna daga verið á ferð og flugi um Miðausturlönd þar sem hann heimsótti fjölda ríkja. Athygli hefur vakið að Trump heimsótti ekki Ísrael. 

„Við verðum að horfa til Gasa-strandarinnar en við munum leysa það. Fjöldi fólks þar er að svelta,“ er haft eftir Bandaríkjaforseta. 

Trump hefur frá því að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar talað um það að hann vilji að Bandaríkjamenn taki yfir stjórn á Gasa og hefji þar uppbyggingu. Áform Trump þess efnis hafa þó verið harðlega gagnrýnd. 

Samkvæmt tölum frá yfirvöldum á Gasa þá hafa rúmlega 53.010 manns látið lífið frá því að átök hófust 7. október 2023 í kjölfar árásar hryðjuverkasamtakanna Hamas á Ísrael en varað hefur verið við því að mikil hætta sé á hungursneyð á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert