Ísraelski herinn tilkynnti í morgun um fyrstu stig nýrrar hernaðaraðgerðar sem miðar að því að buga hryðjuverkasamtökin Hamas og bjarga þeim gíslum sem eru enn í haldi samtakanna. Tíu manns eru sagðir hafa verið drepnir frá því í morgun.
Síðustu daga hafa yfir hundrað manns verið drepnir í sprengjuárásum Ísraela en ísraelski herinn hvatti íbúa á hluta Gasa að yfirgefa svæðið fyrr í þessari viku og varaði við því að hersveitir myndu ráðast á svæðið af miklum krafti.
Mahmud Bassal, talsmaður almannavarna á Gasa, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að tíu hafi fundist látnir eftir árásir morgunsins og að nokkrir til viðbótar hefðu særst og voru þeir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.
Aukinn hernaður Ísraela hefur verið fordæmdur af alþjóðasamfélaginu, meðal annars af Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra en hún var á meðal sjö þjóðarleiðtoga sem undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu vegna ástandsins á Gasa.
Hvöttu leiðtogarnir sjö stjórnvöld í Ísrael til að breyta stefnu sinni án tafar, stöðva hernaðaraðgerðir sínar á Gasa og tryggja aðgengi hjálpargagna mannúðarsamtaka inn á stríðshrjáða svæðið.