Norðmenn fagna þjóðhátíðardegi sínum í dag og að venju með pompi og prakt. Það var á þessum degi árið 1814 sem frændur okkar fengu sína fyrstu stjórnarskrá.
Frændur okkar taka þjóðhátíðardag sinn alvarlega og nær allir klæðast þjóðbúningi í tilefni dagsins. Til eru hvorki fleiri né færri en 450 tegundir af norska þjóðbúningnum og um 70% norskra kvenna eiga slíka viðhafnarflík. Um 20% karla eiga þá norskan þjóðbúning.
Norðmenn taka daginn jafnan snemma og til marks um það samþykkti borgarstjórnin í höfuðborginni Ósló að leyfa veitingu freyðivíns, annars léttvíns og bjórs frá klukkan 8 í morgun í miðborginni en jafnan þurfa Norðmenn að bíða lengur eftir slíkum veigum á veitingahúsum miðborgarinnar.
Skrúðgöngur hefjast jafnan klukkan 10.
Frændur okkar þurfa að næra sig á löngum degi sem þessum en talið er að Norðmenn sporðrenni 13 milljón pylsum á þjóðhátíðardegi sínum og borði tíu sinnum meiri rjómaís en alla jafna á sólríkum sumardegi.
Á þessum degi lýkur svokallaðri „russetid“, sem er þriggja vikna skemmtanatörn hressra norskra framhaldsskólanema.