Ræðir við leiðtogana í von um frið

Trump mun ræða við leiðtogana tvo.
Trump mun ræða við leiðtogana tvo. Samsett mynd AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun ræða við Vladimír Pútín Rússlandsforseta á mánudag í von um að koma hreyfing í friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna. 

Í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social sagði Trump mikilvægt að binda enda á „blóðbaðið“ í Úkraínu. Sagðist hann einnig ætla ræða við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta að loknu samtali við Pútín. 

Úkraínumenn og Rússar funduðu um frið á skammvinnum fundi í Istanbúl í Tyrklandi í gær. Var um að ræða fyrstu beinu friðarviðræðurnar á milli ríkjanna í meira en þrjú ár. 

Næsta skref fundur milli leiðtoganna

Fundurinn stóð yfir í 90 mínútur. Áður en fundurinn hófst voru litlar væntingar um árangur hans. Selenskí hafði gagnrýnt Rússa og sagt þá ekki hafa áhuga á friði. Á sama tíma kölluðu Rússar Selenskí „trúð“ og aumkunarverðan einstakling.“

Engin niðurstaða var að fundi loknum og ekki hefur verið boðað til annars fundar milli ríkjanna. Varnarmálaráðherra Úkraínu, Rustem Umerov, sagði næsta skref í friðarviðræðunum vera fundur milli Selenskí og Pútín. Stjórnvöld í Kreml hafa ekki útilokað slíkt og segja mögulegt að leiðtogarnir muni funda ef það verða marktækar framfarir í viðræðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert