Ísraelsmenn og hryðjuverkasamtökin Hamas hafa hafið vopnahlésviðræður á ný. Nokkrar klukkustundir eru síðan Ísraelsher tilkynnti um nýjar hernaðaraðgerðir á Gasa til að ná bug á Hamas og frelsa gíslana sem eru enn í haldi samtakanna.
Árásir Ísraela á Gasa hafa aukist að undanförnu en heilbrigðisyfirvöld í Palestínu, sem er undir stjórn Hamas, segja að tæplega 150 manns hafi verið drepnir í árásum Ísraela undanfarna daga. Fjölmargir aðrir hafa særst og hafa þurft að leita sér aðstoðar á sjúkrahúsi.
Taher al-Nounou, ráðgjafi Hamas-samtakanna, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að viðræðurnar færu fram í Doha í Katar.
Sagði Nounou að Hamas væri með þá kröfu að Ísrael hleypi mannúðaraðstoð aftur inn á stríðshrjáða svæðið og að Ísraelsher yfirgefi Gasa.
IsraelKatz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði að rætt yrði um lausn gísla sem eru í haldi Hamas-samtakanna.