Nýútskrifaðir sjóliðar á leið til Íslands

Brotin möstur skipsins.
Brotin möstur skipsins. AFP

Seglskip mexíkóska sjóhersins sem silgdi á Brooklyn-brúna í gærkvöldi var á leiðinni til Íslands. För skipsins var hluti af lokaáfanga nýútskrifaðara sjóliða í mexíkóska sjóhernum, en skipið lagði af stað frá Acapoulco í Mexíkó, þann 6. apríl síðastliðinn. 

Vélarbilun í skipinu gerði það að verkum að skipið varð aflvana og rak skipið í kjölfarið á brúnna, með þeim afleiðingum að öll þrjú möstur skipsins hrundu. 277 manns voru um borð í skipinu en tveir eru látnir eftir áreksturinn og nítján slasaðir. 

Engar alvarlegar skemmdir urðu þó á Brooklyn-brúnni en búið er að opna hana aftur fyrir umferð eftir að henni var lokað tímabundið. 

Skipið ber heitið Cuauhtémoc en er einnig þekkt undir gælunafniu „riddari hafsins“ og hefur það í gegnum tíðina reglulega tekið þátt í alþjóðlegum siglingakeppnum um heim allan fyrir hönd mexíkóska sjóhersins, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins

Fjöldi sjóliða hangandi í möstrunum þegar áreksturinn varð

Á myndskeiðum af atvikinu má sjá fjölda sjóliða hangandi í möstrum skipsins rétt fyrir áreksturinn. Mikil skelfing greip jafnframt um sig meðal viðstaddra þegar skipið klessti á. 

Að minnsta kosti einn sjóliði sést bundinn við efsta þrep eins mastursins á meðan aðrir sjást klifrandi upp kaðalstiga fyrir miðju mastrinu. 

Er það jafnframt hluti af hefðum skipsins að sjómenn klifri upp í möstur þess og hífi eða slaki seglum eftir því hvort um brottför eða komu til hafnar sé að ræða. 

skipið dregið til hafnar.
skipið dregið til hafnar. AFP

Forsetinn harmi sleginn

Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X, en þar sagðist hún harmi slegin yfir atburðinum. 

Sagði hún jafnframt mexíkóska sjóherinn nú gera allt sem í valdi hans stendur til þess að hlúa að þeim slösuðust í slysinu.  

Tjónið á skipinu er verulegt.
Tjónið á skipinu er verulegt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert