Bandaríkjaher veitt lögregluvald yfir dönskum borgurum

Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Samsett mynd/AFP

Rúmlega eitt og hálft ár er síðan Danir og Bandaríkjamenn endurnýjuðu varnarsamning sín á milli, en lögfesta á samninginn á danska þinginu í næsta mánuði.

Samningurinn hefur þó vakið nokkura ólgu í Danmörku en í honum er kveðið á um óhindraðan aðgang bandaríska hersins að öllum herstöðvum Dana, þar með talið á Grænlandi.

Óhætt er að segja að forsendur samningsins séu ekki þær sömu og þegar hann var undirritaður, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað látið í ljós vilja sinn um að innlima Grænland inn í Bandaríkin og hefur hann ekki útilokað að beita til þess hervaldi.

Bandarískir hermenn ósnertanlegir 

Segja má að danskar herstöðvar í Danmörku sem og annars staðar á dönsku yfirráðasvæði yrðu þar með að miklu leyti á valdi Bandaríkjamanna, en þar að auki yrði þeim falið herlögregluvald yfir dönskum borgurum í nálægum bæjum við herstöðvarnar.

Bandarískum hermönnum yrði einnig tryggð vernd gegn dönskum lögum þ.a.l. gerist bandarískur hermaður uppvís að glæp á dönsku yfirráðasvæði yrði aðeins heimilt að rétta yfir honum fyrir bandarískum dómstól.

Fullveldi Danmerkur verði að virða

Búist er við að samningurinn verði samþykktur af danska þinginu en í ljósi undanfarinna atburða hefur hann mætt mikilli andstöðu meðal stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega í ljósi þess að ekki verður hægt að segja samningnum upp fyrr en að 10 árum liðnum.

Í frétt breska dagblaðsins The Guardian um málið er haft eftir talsmanni danska varnarmálaráðuneytisins að réttindi bandaríska hersins verði að vera notuð í samræmi við öryggisáætlanir danskra yfirvalda.

Í samningnum sé einnig skilmerkilega kveðið á um að almenn meginregla sé að öll starfsemi fari fram með fullri virðingu fyrir fullveldi, stjórnarskrá og stjórnskipunarvenjum, lögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum Danmerkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert