Að loknu símtali sínu við Vladímír Pútín forsætisráðherra Rússlands fyrr í dag sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti að Rússland og Úkraína myndu hefja vopnahlésviðræður tafarlaust. Pútín tók ekki alveg jafn djúpt í árina.
Þjóðarleiðtogarnir tveir áttu um tveggja klukkustunda langt símtal í dag en að því loknu sagði Pútín að eftir „gagnlegt“ samtal væru rússnesk yfirvöld reiðbúin til að vinna með Úkraínumönnum að minnisblaði um hugsanlegan friðarsamning.
Hann tók þó jafnframt fram að fleiri málamiðlanir væru nauðsynlegar til að binda enda á stríð ríkjanna sem hófst með innrás Rússa í Úkraínu árið 2022.
Trump, sem lofaði í kosningabaráttu sinni að binda enda á átök ríkjanna innan 24 klukkustunda, virtist mjög ánægður með samtal sitt við Pútín.
„Ég lauk rétt í þessu tveggja tíma símtali mínu við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Ég tel að það hafi gengið mjög vel,“ sagði Trump á eigin samfélagsmiðli, Truth Social, fyrr í dag.
„Rússland og Úkraína munu tafarlaust hefja samningaviðræður um vopnahlé og, það sem mikilvægara er, lok stríðsins.“
Trump bætti við að „tónn og andi samtalsins hafi verið frábær,“ en hann hefur undanfarið sýnt merki um vaxandi gremju í garð Pútíns.
Stafar það sú gremja af því að Trump kallaði nýlega eftir 30 daga skilyrðislausu vopnahléi milli Úkraínu og Rússlands. Úkraínsk yfirvöld féllust á tillöguna en Pútín hafnaði henni.
Loks sagði Trump að Vatíkanið, þar sem Leó XIV var nýlega kjörinn sem fyrsti bandaríski páfinn, myndi vera „mjög áhugasamt“ um að hýsa friðarviðræður Rússlands og Úkraínu.
Pútín var ekki jafn afdráttarlaus og Trump að símtali loknu en sýndi þó meiri viðleitni til að leita loka á átökunum en hann hefur áður gert.
„Þetta var mjög upplýsandi og mjög opið og almennt, að mínu mati, mjög gagnlegt,“ sagði Pútín um símtalið við rússneska fjölmiðla.
Hann sagði að rússnesk yfirvöld myndu nú „leggja til og vera reiðubúin til að vinna með úkraínsku hliðinni að minnisblaði um hugsanlegan friðarsamning.“
Ummælin þykja nokkuð óljós, sérstaklega er varðar tímasetningu og innihald minnisblaðsins.
Að lokum sagði rússneski forsetinn að þótt viðræður Rússlands og Úkraínu í Istanbúl í síðustu viku hefðu sett heiminn „á rétta braut“ til að leysa átökin, væru fleiri „málamiðlanir“ enn nauðsynlegar.