Segir ástandi Bidens hafa verið haldið leyndu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP/Jim Watson

Donald Trump Bandaríkjaforseti ýtti undir vangaveltur um að veikindum Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefði vísvitandi verið haldið leyndum. Sagðist hann jafnframt undrandi á því að almenningur hafi ekki verið upplýstur um ástand forvera síns fyrr.

Í gær var greint frá því að Biden hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. 

Kveður því nú í annan tón í samskiptum þeirra Trump og Biden, en áður hafði Trump óskað forvera sínum skjóts bata. Nú vill Trump þó meina að málið sé hluti af víðtækara pólitísku makki, en ýmsar sögur hafa verið um hylmingu Hvíta hússins á  versnandi líkamlegu ástandi Biden meðan hann var í embætti.

Nýjar spurningar hafa einnig óneitanlega vaknað undanfarnar vikur um heilsu Biden á meðan hann var í embætti, en í nýrri bók eftir blaðamennina Jake Tapper hjá CNN og Alex Thompson hjá Axios er fullyrt að starfsfólk hans hafi vísvitandi unnið að því að leyna hnignun hans fyrir almenningi.

Barnabarn Bidens, Naomi, hefur þó hafnað þessum ásökunum og sagt bókina ekkert annað en ófrumlegar lygar sem skrifaðar séu í gróðaskyni af óábyrgum blaðamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert