Kínverskt djúpsjávarnámufyrirtæki hefur fengið leyfi til tilrauna námuvinnslu á hafsbotni Kyrrahafs. Er fyrirtækið þar með það fyrsta í Kína til að fá grænt ljós frá alþjóðlegum eftirlitsaðila.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu, China Minmetals, kom fram að umhverfismatsskýrsla þeirra um fyrirhugaða könnun hefði „nýlega staðist með góðum árangri“ skilyrði laga- og tækninefndar International Seabed Authority (ISA). Þetta sé í fyrsta skipti sem kínversk fyrirtæki hafi uppfyllt staðla ISA fyrir prófanir á hafsbotni og að þetta leyfi gæti þjónað sem „fordæmi fyrir frekari leyfi.“
Ríki keppast nú um að tryggja sér aðgang að jarðefnum á dýpri hafsvæðum, en slíkir málmar eru nauðsynlegir fyrir endurnýjanlega orku og rafhlöður í rafbíla. Kína hefur hingað til haldið að sér höndum varðandi námuvinnslu á alþjóðlegu hafsvæði á meðan beðið er eftir formlegum reglum ISA sem hafa verið í þróun í mörg ár.
Bandaríkin, sem eru ekki aðili að samningum ISA, hafa ákveðið að fara fram hjá þessu ferli. Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun í síðasta mánuði um að auka djúpsjávarvinnslu Bandaríkjanna á sjaldgæfum jarðefnum á innlendu og alþjóðlegu hafsvæði. Tilskipun Trumps vakti reiði hjá yfirvöldum í Kína, sem sögðu að hún „brjóti gegn alþjóðalögum“.
Umhverfisverndarsamtök hafa varað við umhverfisáhrifum djúpsjávarvinnslu, en vaxandi eftirspurn eftir auðlindunum og mikill umhverfiskostnaður námuvinnslu á landi ýtir undir kapphlaup um aðgang að slíkum auðlindum.
Kína greiðir hæstu framlögin til ISA, sem er stofnun tengd Sameinuðu þjóðunum, en Xi Jinping, forseti Kína, hefur lagt áherslu á mikilvægi djúpsjávar „fjársjóði“.