Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, býst við að stjórnvöld í Rússlandi leggi fram drög að vopnahléi á næstu dögum sem muni sýna fram á hvort þeim sé alvara með friðarviðræðurnar sem eru í gangi á milli samninganefnda Úkraínu og Rússlands.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur ítrekað hafnað tillögum um vopnahlé sem samninganefndir Bandaríkjanna hafa lagt fram og hefur Vladimír Selenskí sakað rússneska forsetann um sýndarmennsku. Hann komi ekki að samningsborðinu með það að markmiði að semja um frið.
Sendinefndir frá Rússlandi og Úkraínu áttu beinar samningaviðræður í Istanbúl í Tyrklandi í síðustu viku, í fyrsta skipti í tæp þrjú ár. Viðræðunum lauk hins vegar án skuldbindinga um vopnahlé.
Selenskí og Trump höfðu gefið það út að þeir væru tilbúnir til að mæta til fundarins ef Pútín gerði slíkt hið sama. Það vildi Pútín hins vegar ekki gera og gagnrýndi Selenskí hann í kjölfarið fyrir að vera ekki alvara með viðræðunum.
Eftir friðarfundinn ræddi Donald Trump Bandaríkjaforseti við bæði Pútín og Selenskí um mögulegt vopnahlé og endalok stríðsins sem hófst með innrás Rússa í Úkraínu árið 2022.
Rubio sagði í dag að hann geri ráð fyrir að kröfur Rússa til vopnahlés verði nokkuð víðtækar.
„Ef kröfurnar eru raunhæfar og það er hægt að vinna út frá þeim er það eitt. En ef kröfurnar eru óraunhæfar þá er það lýsandi,“ sagði utanríkisráðherrann.
Trump lofaði í kosningabaráttu sinni að binda átök milli ríkjanna innan 24 klukkustunda frá því hann tæki við embætti forseta. Hann hefur nú gengt embætti í fjóra mánuði og hefur honum ekki tekist ætlunarverk sitt.
AFP-fréttastofan ræddi við íbúa Kænugarðs og Moskvu sem voru efins um hvort Trump myndi takast að binda enda á stríðið.
„Ég hafði aldrei neina trú á honum og nú hef ég enga trú á honum,“ sagði Victoria Kyseliova, eftirlaunakennari í Kænugarði, þegar hún var spurð út í trú hennar á hvort Trump gæti leitt leiðtogana tvo til sátta.
Hljóðið var annað í íbúum Moskvu sem töldu samningaviðræðurnar óþarfar:
„Ég tel að við þurfum ekki þessar samningaviðræður. Við munum vinna hvort eð er,“ sagði Marina,“ íbúi í Moskvu.