Telja Biden hafa verið með krabbamein sem forseti

Greint var frá veikindum Bidens um helgina.
Greint var frá veikindum Bidens um helgina. AFP

Einhverjir læknar velta því fyrir sér hvort að Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi verið með krabbamein á meðan hann gegndi embætti forseta. Telja þeir undarlegt að forsetinn fyrrverandi hafi ekki verið í reglulegu eftirliti með blöðruhálskrabbameini en hann greindist með góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli fyrir nokkrum árum. 

Greint var frá því á sunnudag að Biden hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Biden sótti sér læknisaðstoð í síðustu viku vegna einkenna þvagfærasýkingar og þá fundu læknar hnúð á blöðruhálskirtlinum.

Krabbameinið er sagt langt gengið og hefur hann jafnframt verið greindur með meinvörp í beinum. 

Hafi verið með krabbamein allan forsetaferilinn

Ezekiel Emanuel, krabbameinslæknir sem starfaði sem ráðgjafi Hvíta hússins í kórónuveirufaraldrinum, er einn af þeim sem telja að Biden hafi verið með krabbamein á meðan hann starfaði sem forseti, án þess að hann hafi þó vitað af því. 

„Hann þróaði þetta ekki með sér á síðustu 100, 200 dögum. Hann var með það [krabbameinið] þegar hann var forseti. Hann var líklega með það í upphafi forsetatíðar sinnar árið 2021. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það,“ sagði Emanuel í viðtali á sjónvarpsþáttastöðinni MSNBC. 

Chris George, læknir sem starfar hjá Northwestern Health Network, sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna að hann telji líklegt að Biden hafi fengið ítarlega læknisskoðun á ári hverju þar sem litlar líkur séu á því að allar rannsóknir hafi komið eðlilega út. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti er einnig á meðal þeirra sem telja Biden hafa vísvitandi haldið veikindum sínum leyndum á meðan hann starfaði sem forseti. 

Í fréttaskýringu sem Wall Street Journal birti í gær er rætt við starfsmenn sem störfuðu náið með Biden í Hvíta húsinu. Sögðu þeir að ýmsum aðferðum hefði verið beitt til að hylma yfir þeim vandamálum sem voru farin að fylgja aldri forsetans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert