Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir að þrumuveður skall á í Suðaustur-Frakklandi í dag.
Hjón létu lífið eftir að bíll þeirra varð fyrir flóði í sjávarbænum Le Lavandou og var lík konunnar fast í rústum bílsins. Rannsókn er hafin á dánarorsökum hjónanna en viðbragsðaðilar lýsa erfiðum aðstæðum á vettvangi.
Einn lést í bænum Vidauban eftir að bílstjóri með einn farþega í bílnum ók inn á sveitarveg sem flætt hafði yfir og lenti ofan í skurði. Viðbragðsaðilar náðu bílstjóranum úr bílnum en ekki náðist að bjarga farþeganum.
Gil Bernardi, bæjarstjóri Le Lavandou, lýsir aðstæðum eins og stríðsástandi. Hann segir vegi eyðilagða og að brýr hafi klofnað í sundur.
„Þetta var svakalega ofsafengið, illt og óskiljanlegt fyrirbæri.
Það er ekkert eftir, ekkert rafmagn, ekkert drykkjarvatn, engin fráveituverksmiðja,“ segir hann.