Trump gerir dreifingu á kynferðislegu efni á netinu refsiverða

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Dreifing kynferðislegs efnis á netinu án samþykkis er nú refsiverð í Bandaríkjunum, hvort sem myndefnið er raunverulegt eða búið til með gervigreind. Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði undir lög þess efnis í gær.

Lögin leggja bann við dreifingu á kynferðislegu efni sem ekki hefur verið samþykkt af þeim sem birtast í því. Refsingin er allt að þriggja ára fangelsisdómur.

Lögin krefjast þess að slíkt efni verði tekið niður. Að sögn Trumps munu vefsíður sem fjarlægja ekki efnið innan tveggja sólahringa þurfa að sæta ábyrgð.

Gervigreind er hægt að nota til að búa til falsað kynferðislegt efni sem líkir eftir raunverulegu fólki. Dreifing slíks efnis verður sífellt algengari. Þróun gervigreindar er hröð svo erfitt hefur reynst að setja lög í kringum notkun á henni.

Fjöldi tilvika þar sem nemendur beita samnemendur sína stafrænu kynferðisofbeldi með þessum hætti hafa átt sér stað í skólum Bandaríkjunum.

Melania Trump forsetafrú hefur líst yfir stuðningi við löggjöfina en lítið hefur borið á frúnni síðan Trump var kjörinn í annað sinn.

Lögin hafa verið gagnrýnd fyrir að veita yfirvöldum aukið ritskoðunarvald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert