Sextán ára finnskur drengur situr í haldi lögreglu grunaður um að hafa ráðist á þrjár stúlkur í Vähäjärvi-skóla í Pirkkala í Finnlandi og veitt þeim stungusár. Börnin eru öll nemendur við skólann. Í stefnuyfirlýsingu sem hann dreifði um skólann kom fram að hann vildi sérstaklega ráðast á stúlkur.
Ekki hefur verið endanlega staðfest að gerandinn hafi gefið stefnuyfirlýsinguna út, og hefur hún ekki verið birt opinberlega.
Samkvæmt finnska ríkisútvarpinu YLE hefur sá grunaði ekki verið verið yfirheyrður, en lögregla rannsakar málið sem þrjú morðtilræði. Lögregla segir að ef marka megi stefnuyfirlýsinguna hafi sá grunaði sérstaklega leitað uppi stúlkur til að ráðast á.
Engin hinna særðu er í lífshættu, en lögregla segist ekki geta tjáð sig nánar um alvarleika áverka stúlknanna sem allar eru undir 15 ára aldri. Greint hefur verið frá að ein þeirra hafi verið stungin í hálsinn, önnur í handlegginn og sú þriðja í mittið, en lögregla hefur ekki staðfest þær upplýsingar.
Samkvæmt YLE verður skólahald með venjulegum hætti næstu daga.