England verður í ágúst fyrst landa til þess að bólusetja fólk gegn lekanda. Samkynhneigðir- og tvíkynhneigðir karlmenn sem hafa átt marga bólfélaga eða hafa áður greinst með kynsjúkdóma fá forgang í bólusetninguna, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins.
Heilbrigðisstofnun Englands bindur vonir við að bóluefni gegn lekanda muni fækka þeim sem smitast af lekanda en þeir hafa ekki verið fleiri síðan árið 1918. Árið 2023 voru 85.000 tilfelli af lekanda greind á Englandi. Ef bóluefnið verður notað eins mikið og vonir standa til gæti það komið í veg fyrir 100.000 smit.
Bóluefnið var ekki þróað gegn lekanda, heldur er það í raun bóluefni gegn heilahimnubólgu. Bakteríurnar sem valda þessum tveimur sjúkdómum eru náskyldar og kemur bóluefnið gegn heilahimnubólgu í veg fyrir þriðjung smita af lekanda.
Þrátt fyrir að bóluefnið komi ekki í veg fyrir smit í öllum tilvikum gæti það haft mikil áhrif á útbreiðslu sjúkdómsins. Bakterían sem veldur lekanda er stöðugt að þróast svo sífellt verður erfiðara að meðhöndla sjúkdóminn. Læknar hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að lekandi verði einn daginn ólæknandi.
Lekandi er kynsjúkdómur sem tekur sér bólfestu í slímhúð kynfæra, þvagrás, endaþarmi eða hálsi. Einkenni koma yfirleitt fram einum til sjö dögum eftir smit en smitaður einstaklingur getur verið einkennalaus. Sjúkdómurinn smitast við óvarin kynmök.