Fordæma viðvörunarskot Ísraela og krefjast rannsóknar

Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti Evrópuráðsins, ræðir við blaðamenn.
Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti Evrópuráðsins, ræðir við blaðamenn. AFP

Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti Evrópuráðsins, Kaja Kallas, krefst rannsóknar á viðvörunarskotum sem skotið var að sendinefnd stjórnarerindreka í Jenin á Vesturbakkanum í dag.

Kallas sagði í samtali við blaðamenn í Brussel í dag að allar hótanir við líf diplómata séu óviðunandi. Kallar hún eftir því að þeir sem beri ábyrgð verði sannarlega dregnir til ábyrgðar.

Í sambandi við önnur ríki

Utanríkisráðherrar Ítalíu, Spánar og Belgíu hafa allir fordæmt atvikið en stjórnarerindrekar m.a. frá löndunum þremur voru í sendinefndinni.

Antonio Tajani utanríkisráðherra Ítalíu sagði á X að Ítalir skori á ríkisstjórn Ísraels að útskýra strax hvað gerðist. Hótanir í garð diplómata séu óviðunandi.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Spánar sagði Spánverja vera í sambandi við önnur ríki sem málið snerti. Spánn fordæmdi atvikið harðlega.

Maxime Prevot, utanríkisráðherra Belgíu, sagði á X að hann væri sleginn yfir atvikinu og að Belgía krefjist sannfærandi skýringa frá Ísrael. Tekið var fram í orðræðu frá ráðuneytum landanna þriggja að erindrekar þeirra væru ómeiddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert