Hópur óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum samþykkti að yfirgefa landið gegn greiðslu sem nemur tæpum 130 þúsund íslenskra króna frá bandaríska ríkinu.
64 innflytjendum var flogið frá Texas á mánudag, 26 til Kólumbíu og 38 til Hondúras.
Samkvæmt yfirlýsingu bandaríska heimavarnaráðuneytisins (DHS) fékk fólkið aðstoð við ferðalagið auk fjárhæðarinnar sem greidd verði í hlutum. Það eigi enn möguleika á að snúa aftur til Bandaríkjanna með löglegum hætti seinna.
Kristi Noem, ritari bandaríska heimavarnaráðuneytisins, hvetur óskráða innflytjendur til að nýta sér þetta úrræði. Ef þeir geri það ekki geti þeir átt von á að vera sektaðir, handteknir og vísað úr landi. Þá geti þeir aldrei snúið aftur til Bandaríkjanna.
„Ef þú ert í þessu landi með ólöglegum hætti, farðu af sjálfsdáðum núna og haltu í möguleikann á að koma kannski aftur á löglegan og réttan hátt,“ sagði Noem.
Í forsetaframboði sínu hét Donald Trump Bandaríkjaforseti því að vísa milljónum óskráðra innflytjenda úr landi. Síðan hann tók við forseta embættinu í annað sinn hefur hann gripið til margvíslegra aðgerða sem snúa að brottvísunum.