Innflytjendur yfirgefa Bandaríkin gegn greiðslu

Kristi Noem, ritari bandaríska heimavarnarráðuneytisins.
Kristi Noem, ritari bandaríska heimavarnarráðuneytisins. AFP/Rebecca Noble

Hópur óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum samþykkti að yfirgefa landið gegn greiðslu sem nemur tæpum 130 þúsund íslenskra króna frá bandaríska ríkinu. 

64 innflytjendum var flogið frá Texas á mánudag, 26 til Kólumbíu og 38 til Hondúras.

Samkvæmt yfirlýsingu banda­ríska heima­varn­aráðuneyt­isins (DHS) fékk fólkið aðstoð við ferðalagið auk fjárhæðarinnar sem greidd verði í hlutum. Það eigi enn möguleika á að snúa aftur til Bandaríkjanna með löglegum hætti seinna.

„Farðu af sjálfsdáðum núna“

Kristi Noem, ritari banda­ríska heima­varn­aráðuneyt­isins, hvetur óskráða innflytjendur til að nýta sér þetta úrræði. Ef þeir geri það ekki geti þeir átt von á að vera sektaðir, handteknir og vísað úr landi. Þá geti þeir aldrei snúið aftur til Bandaríkjanna.

„Ef þú ert í þessu landi með ólöglegum hætti, farðu af sjálfsdáðum núna og haltu í möguleikann á að koma kannski aftur á löglegan og réttan hátt,“ sagði Noem.

Í forsetaframboði sínu hét Donald Trump Bandaríkjaforseti því að vísa milljónum óskráðra innflytjenda úr landi. Síðan hann tók við forseta embættinu í annað sinn hefur hann gripið til margvíslegra aðgerða sem snúa að brottvísunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert