George Simion, sem beið ósigur í forsetakjöri Rúmeníu á sunnudag, sagði í gær að hann hyggðist biðja löggjafarþingið að ógilda kosningarnar. Sagðist hann telja að erlend ríki hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna, þar á meðal Frakkland.
Borgarstjóri Búkarest, Nicusor Dan, hlaut tæplega 54% atkvæða, og í kjölfar þess óskaði hinn hægri- og þjóðernissinnaði Simion honum til hamingju með sigurinn.
Simion snerist hins vegar hugur í gær. Í færslu sinni á samfélagsmiðlinum X vísaði hann til „íhlutunar erlendra ríkja og erlendra aðila“ sem ástæðu bónar sinnar til löggjafarþingsins. Fánar Frakklands og Moldóvu fylgdu einnig með í færslunni.
Í gær kvaðst Simion hafa óskað andstæðingi sínum til hamingju til þess að koma í veg fyrir að fólk mótmælti niðurstöðu kosninganna. Bætti hann við að hann „vildi aldrei nokkurn tíma sjá blóðsúthellingar í landinu“.
Fyrir fimm mánuðum ógildi rúmenska þingið forsetakosningar vegna ásakana um íhlutun Rússlands, og var hinum hægrisinnaða Calin Georgescu bannað að bjóða sig aftur fram. Tugþúsundir mótmæltu ógildingunni og margir háttsettir bandarískir embættismenn gagnrýndu hana.