Kínverjar órólegir vegna „Gullhvelfingar“ Trumps

Trump á blaðamannafundi í gærkvöldi.
Trump á blaðamannafundi í gærkvöldi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst koma á fót háþróuðu loftvarnarkerfi, svokallaðri „Gullhvelfingu“ sem gæti skotið niður eldflaugar af öllum gerðum – jafnvel úr geimnum. Kínverjar saka forsetann um að grafa undan stöðugleika.

Í gær tilkynnti Trump að búið væri að eyrnamerkja 25 milljarða bandaríkjadala fyrir verkefnið, sem myndi í heildina kosta 175 milljarða og vera tilbúið eftir um þrjú ár.

Stjórnvöld í Peking eru ósátt. Þau kalla gullhvelfinguna hótun við alþjóðaöryggi og saka Bandaríkjamenn um kynda undir vopnakapphlaup.

„Í kosningabaráttunni lofaði ég bandarísku þjóðinni að ég myndi byggja loftvarnaskjöld í fremstu röð,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í gær.

Trump og Hegseth kynntu áformin í sameiningu í gær. Gullhvelfingin …
Trump og Hegseth kynntu áformin í sameiningu í gær. Gullhvelfingin mun tækni í geimnum. AFP

„Þegar hún er fullbyggð mun Gullhvelfingin geta skotið niður eldflaugar jafnvel þó þeim sé skotið upp hinu megin á hnettinum, og jafnvel þó þeim sé skotið úr geimnum,“ bætti forsetinn við.

Hann sagði að Michael Guetlein, yfirmaður geimaðgerða hjá flughernum, muni leiða verkefnið. Trump sagði auk þess að Kanadamenn vilji taka þátt í verkefninu.

Trump segir kostnaðinn metinn á 175 milljarða dala en fjármálaskrifstofa Bandaríkjaþings metur kostnaðinn á loftvörnum úr geimnum á um 161-542 bandaríkjadali, þ.e. hátt í 69.110 milljarða króna, yfir 20 ár.

Pete Hegseth varnarmálaráðherra sagði að kerfið ætti að verja „heimalandið frá stýriflaugum, skotflaugum, hljóðfráum flaugum, drónum, hvort sem þau séu venjuleg eða kjarnorkuknúin“.

Nafnið Gullhvelfing – með stórum upphafsstaf – dregur innblástur frá ísraelska loftvarnarkerfinu sem nefndist Járnhvelfingin, sem hefur skotið niður þúsundir skammdrægra flugskeyta frá því að því var komið á fót árið 2011.

Stjórnvöld í Peking segjast hafa „alvarlegar áhyggjur“ af áætlununum og segja þær grafa undan stöðugleika í alþjóðamálum.

„Bandaríkin eru setja sína eigin hagsmuni fremst og hafa þráhyggju um að leitast eftir algjöru öryggi, sem fer gegn því prinsippi að öryggi nokkurs lands ætti ekki að fást á kostnað annars,“ sagði Mao Ning, talsmaður utanríkisráðuneytisins, á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert