Mikill hiti var á fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, í Hvíta húsinu fyrr í dag.
Þar sakaði Trump suðurafrísk stjórnvöld m.a. um að hafa ekki brugðist við ofsóknum og meintu þjóðarmorði gegn hvítum bændum í landinu.
Sagði Trump fjölda mörg dæmi um það að land hvítra bænda hefði verið gert upptækt og bændurnir svo í mörgum tilfellum verið drepnir.
Fyrir fundinn hafði Trump samþykkt að greiða fyrir komu hvítra flóttamanna frá Suður-Afríku til Bandaríkjanna en samkvæmt umfjöllun CNN um málið munu 59 flóttamenn þegar hafa komið til Bandaríkjanna.
Þá sýndi Trump forsetanum einnig myndskeið af grafreit þar sem hann sagði hvítt fólk og önnur fórnarlömb ofsóknanna hafa verið grafin.
Ramaphosa tók ekki undir ásakanir Trumps um að hvítt fólk hefði sérstaklega þurft að sæta ofsóknum. Forsetinn viðurkenndi þó að tíðni glæpa í Suður-Afríku væri of há en benti á að fórnarlömb ofbeldisfullra glæpa væru ekki bundin við einn kynþátt.