55 menn hafa verið handteknir í Frakklandi í þessari viku. Handtökurnar eru hluti af aðgerð gegn barnaníðshring sem starfar í gegnum skilaboðaappið Telegram, að sögn yfirvalda.
42 mismunandi deildir lögreglunnar sinntu handtökunum þar sem sakarefnin voru varsla, dreifing og reglulegt áhorf á klám þar sem börn komu við sögu „undir 10 ára að aldri“, að sögn frönsku deildarinnar OFMIN sem hefur það verkefni að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum.
OFMIN gaf á sínum tíma út handtökuskipun sem leiddi til handtöku stofnanda Telegram, Pavel Durov, í París í fyrra. Frönsk yfirvöld eru enn að rannsaka hann vegna ólöglegs efnis á þessu vinsæla appi.
Mennirnir 55 voru handteknir eftir 10 mánaða rannsókn. Þeir eru á aldrinum 25 til 75 ára og koma úr ýmsum áttum. Á meðal þeirra eru prestur, sjúkraflutningamaður og tónlistarkennari.