Japanska lögreglan segist hafa handtekið fyrrverandi leigubílstjóra sem er grunaður um að hafa byrlað konu ólyfjan í bíl sínum og nauðgað henni.
Að sögn fjölmiðla gætu fórnarlömbin numið tugum til viðbótar.
Dagblaðið Yomiuri Shimbun og Jiji Press greindu frá því að lögreglan hefði fundið um þrjú þúsund myndbönd og ljósmyndir af manninum brjóta kynferðislega gegn um 50 konum í leigubíl sínum eða á heimili sínu.
Talsmaður lögreglunnar sagði við AFP-fréttastofuna að maðurinn hefði í fyrra „fengið konu sem þá var á þrítugsaldri, til að taka svefntöflur sem urðu til þess að hún missti meðvitund, fór með hana heim til sín og framdi ósiðlegt athæfi sem hann myndaði”.
Lögreglan handtók manninn, sem er 54 ára, í gær vegna málsins. Myndefnið af konunum fannst í síma mannsins og í öðrum tækjum hans og nær það aftur til ársins 2008.