„Það má færa rök fyrir því að þetta sé mikilvægasta löggjöf sem komið hefur verið á í sögu landsins!“
Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti um frumvarp sem felur í sér nýja innanríkisstefnu í landinu. Frumvarpið hefur verið samþykkt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings með minnsta mun, 215 atkvæðum gegn 214.
Í færslu á Truth Social segir forsetinn að frumvarpið innihaldi umfangsmiklar skattalækkanir, engir skattar verði á þjórfé eða yfirvinnu og skattaafsláttur verði veittur af kaupum á amerískum bifreiðum.
Þá feli það í sér ákvæði um meira öryggi á landamærum Bandaríkjanna og launahækkanir til landamæravarða.
Fjármögnun er skilgreind í frumvarpinu fyrir „Golden Dome“, sem er nýtt loftvarnarkerfi Bandaríkjanna.
Þá voru þar kynntir til leiks sparnaðarreikningar fyrir nýbura kenndir við forsetann sjálfan.
Donald Trump Truth Social 05.22.25 08:23 AM EST
— Commentary Donald J. Trump Posts From Truth Social (@TrumpDailyPosts) May 22, 2025
“THE ONE, BIG, BEAUTIFUL BILL” has PASSED the House of Representatives! This is arguably the most significant piece of Legislation that will ever be signed in the History of our Country! The Bill includes MASSIVE Tax CUTS, No Tax…
Samþykkt frumvarpsins í fulltrúadeildinni er talinn mikilvægur sigur Trumps, þar sem tekist hefur að sameina sundurleitan þingmannahóp fulltrúadeildarinnar en margir þingmenn vildu enn þrýsta á breytingar í frumvarpinu.
Lögin, sem repúblikanar hafa nefnt „One Big Beautiful Bill Act“, sem gæti útlistast sem hið eina stóra fallega frumvarp, miðar að því að uppfylla mörg af kosningaloforðum Trumps og snerta margvísleg stefnumál hans.
Óljóst er hvernig mun ganga að koma frumvarpinu í gegnum öldungadeildina en einhverjir þingmenn Repúblikana hafa gefið til kynna að þeir vilji gera á því breytingar.
Trump og Mike Johnson þingforseti hafa lýst vilja að frumvarpið verði að lögum fyrir þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, 4. júlí.