Elias Rodriguez hefur verið ákærður fyrir morð á tveimur ísraelskum sendiráðsmönnum fyrir utan gyðingasafn í Washington í fyrradag.
Rodriguez, sem er 31 árs gamall og er búsettur í Chicago, var leiddur fyrir dómara í gær þar sem hann var ákærður fyrir morð af fyrstu gráðu á parinu Yaron Lischinsky og Sarah Lynn Milgrim. Rodriguez, sem hrópaði frjáls, frjáls Palestína þegar hann var handtekinn gæti fengið dauðarefsingu verði hann fundinn sekur um glæpinn.
Yaron Lischinsky og Sarah Lynn störfuðu bæði í ísraelska sendiráðinu í Washington og til stóð að þau gengu í það heilaga á næstunni.
Vitni segja að Rodriguez hafi dregið upp palestínskan klút úr tösku sinni þegar hann var handtekinn og hafi lýst yfir ábyrgð á verknaðinum.
Samkvæmt dómskjölum gekk Rodriguez að fórnarlömbum sínum og skaut 21 skoti á parið. Hann var í fyrstu talinn fórnarlamb skotárásarinnar og var honum því hleypt inn í bygginguna af öryggisvörðum en var stuttu síðar handtekinn, grunaður um verknaðinn.
Árásin var gerð nokkrum dögum eftir að gyðingasafninu var veittur styrkur til að efla öryggi þar sem gyðingahatur hefur aukist um heim allan í kjölfar árása Ísraelsmanna á Gasa sem hófust eftir árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael í október 2023.