Sænska leyniþjónustan (Sapo) segir að dregið hafi úr líkum á árásum í landinu og hefur hún fyrir vikið lækkað hættustig sitt vegna hryðjuverka úr „mikilli ógn“ niður í „aukna ógn“.
Sapo hækkaði hættustig sitt vegna hryðjuverka í Svíþjóð í ágúst árið 2023 í „mikla ógn“, sem er fjórða stigið af fimm, eftir að hörð viðbrögð við mótmælum þar sem Kóraninn, trúarrit múslima, var brenndur, gerðu landið að skotmarki.
„Áróður gegn Svíþjóð er ekki til staðar lengur og Svíþjóð er ekki lengur nefnd sérstaklega sem skotmark,“ sagði Fredrik Hallstrom, yfirmaður hjá Sapo. „Við erum ekki að sjá þessar miklu hótanir gegn Svíþjóð lengur.“
Hættustigið „aukin ógn“ er það þriðja af fimm og tekur Hallstrom sérstaklega fram að „með aukinni ógn er enn möguleiki á að hryðjuverk eigi sér stað“.
Röð Kóranbrenna í Svíþjóð sumarið 2023, einkum af hálfu íranska aðgerðarsinnans og flóttamannsins Salwan Momika, reitti múslima til mikillar reiði og flækti samskipti Svíþjóðar og nokkurra Mið-Austurlanda.
Mótmælendur frá Írak réðust tvisvar inn á sænska sendiráðið í Bagdad í júlí 2023 og kveiktu eld í húsinu í annað skiptið.
Momika var að lokum ákærður fyrir að hvetja til haturs vegna þjóðernis en var skotinn til bana í janúar, aðeins örfáum klukkustundum áður en úrskurður var væntanlegur í máli hans.
Annar mótmælandi var fundinn sekur um hvatningu til slíks haturs vegna Kóranbrennanna.
Þrátt fyrir lækkað hættustig vegna hryðjuverka ítrekar Charlotte von Essen, yfirmaður Sapo, að Svíþjóð stendur enn frammi fyrir alvarlegri öryggisógn.
„Þeirri verstu í mörg ár,“ segir hún og nefnir einnig að stríðið í Úkraínu sé enn í gangi.
„Erlend öfl, sérstaklega Rússland, halda úti víðtækum aðgerðum sem ógna öryggi í og gegn Svíþjóð.“