Harvard-háskóli í Bandaríkjunum hefur ákveðið að stefna ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta í kjölfar þess að bandaríska heimavarnarráðuneytið afturkallaði heimild háskólans til þess að innrita erlenda nema í gær.
Kristi Noem, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, ritaði háskólanum bréf í gærkvöldi þar sem segir að Harvard hafi ekki lengur heimild til þess að innrita erlenda nema; í bréfinu kemur fram að ákvörðunin taki gildi strax.
Háskólinn hefur því gripið til þess ráðs að stefna ríkisstjórninni. Í stefnunni segir að með ákvörðun sinni sé ríkisstjórnin að virða stjórnarskrárbundinn rétt skólans til skoðanafrelsis að vettugi.
Noem segir í bréfinu að það sé ekki réttur háskóla að innrita erlenda nemendur heldur séu það forréttindi. Hún segir mikilvægt að skólar fylgi reglum sem ríkisstjórnin setur þeim til þess að halda þessum forréttindum.
Ákvörðunin gildir ekki aðeins um þá nemendur sem koma til með að innrita sig í skólann heldur gildir hún afturvirkt um þá sem þegar hafa hafið skólavist í skólanum. Erlendir nemar við skólann þurfa því að finna sér nýjan skóla að öllu óbreyttu.
Fjöldi Íslendinga stundar nám við skólann og er framtíð þeirra nú í algjörri óvissu.
Harvard telur eins og áður segir að ríkisstjórnin sé að brjóta í bága við stjórnarskrárbundin réttindi sín en Alan Garber, rektor Harvard, sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í morgun þar sem hann gagnrýnir ákvörðunina harðlega.
„Við fordæmum þessa ólöglegu og ósanngjörnu ákvörðun sem teflir framtíð þúsunda nemenda í tvísýnu. Þetta er áhyggjuefni fyrir alla þá nemendur sem ákveðið hafa að koma til Bandaríkjanna til þess að stunda nám sitt,“ segir í yfirlýsingu Garber.
Trump og ríkisstjórn hans hafa harðlega gagnrýnt skólann síðastliðna mánuði. Hann hefur krafist þess að skólinn bregðist við aukinni gyðingaandúð innan skólans en auk þess hefur hann gagnrýnt ráðningar- og inntökuskilyrði skólans.
Trump hótaði háskólanum ýmsum refsiaðgerðum í aprílmánuði ef að skólinn héldi áfram að ýta undir hugmyndafræði sem Trump telur „woke“ og innblásna af hryðjuverkum.