Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði fyrr í dag að leggja 25% prósent toll á Apple-vörur sem ekki eru framleiddar í Bandaríkjunum. Hlutabréf í Apple hríðféllu í kjölfar yfirlýsinganna.
Þessi orð lét Trump falla á samfélagsmiðlinum Truth Social en á þeim sama vettvangi beindi hann spjótum sínum að Evrópusambandið fyrr í dag og hótaði að leggja 50% toll á ríki sambandsins.
Trump hefur lagt á hina ýmsu tolla frá því að hann tók við embætti í janúar. Hann hefur þó ekki lagt sérstaka tolla á einstök fyrirtæki enda verður það að teljast óvenjulegt.
Nær allar vörur Apple eru hannaðar í Bandaríkjunum og svo framleiddar í Kína. Í ljósi tollastríðs Bandaríkjanna og Kína hefur Apple þó ákveðið að færa framleiðsluna að hluta til annarra landa í Asíu, meðal annars til Indlands. Trump hefur þó ekki fallist á það með Apple að það leysi vandann.
„Ég hef tilkynnt Tim Cook, forstjóra Apple, að ég geri þá kröfu að iPhone-símar séu framleiddir í Bandaríkjunum, ekki á Indlandi eða á öðrum stöðum. Ef það gerist ekki þá mun ég leggja 25% tolla á vörur sem Apple framleiðir ekki í Bandaríkjunum,“ segir Trump í færslu á Truth Social.
Sérfræðingar vestanhafs hafa varað við því að afar óraunhæft sé fyrir Apple að færa framleiðslu sína til Bandaríkjanna.