Stýrimaður risastórs gámaskips var líklega sofandi þegar það strandaði örfáum metrum frá íbúðarhúsi í Þrándheimsfirði í Noregi í gærmorgun að sögn norskra fjölmiðla.
Norska fréttastofan NTB segir að aðeins einn maður hafi verið í brúnni á þeim tíma. Hann var að stýra skipinu en breytti ekki stefnu þegar skipið sigldi inn í Þrándheimsfjörðinn eins og hann hefði átt að gera.
„Lögreglan hefur fengið upplýsingar frá öðrum sem voru um borð um að hann hefði verið sofandi,“ segir lögreglumaðurinn Kjetil Bruland Sorensen við NTB.
Johan Helberg uppgötvaði óvænta gestinn fyrst þegar nágranni hans, sem hafði hringt dyrabjöllunni ítrekað án árangurs, gafst upp og hringdi í hann. Helberg var þá sofandi en í símtalinu spurði nágranninn hvort hann hefði ekki tekið eftir skipinu sem hafði strandað í fjörunni steinsnar frá húsi hans.
„Dyrabjallan hringdi á þeim tíma dags þegar mig óraði ekki fyrir því að opna,“ segir Helberg við norsku sjónvarpsstöðina TV2 en nágranni hans, Jorstein Jörgensen, sagðist hafa vaknað klukkan 5 um morguninn við hljóðið í skipinu sem var á fullri ferð í átt að landi og hafi þegar í stað hlaupið að húsi Helbergs.
Enginn af skipverjunum 16 sem voru í skipinu varð meint af en málið er til rannsóknar hjá lögreglunni. Skipið er enn fast en tilraunir til að koma því á flot hafa ekki borið árangur.