Talið er að allir sex farþegarnir sem um borð voru í flugvél sem hrapaði í miðri íbúabyggð í San Diego í Kaliforníuríki í gærdag séu látnir.
Flugvélin sem hrapaði var lítil einkaflugvél af gerðinni Cessna 550 en flugvélin hrapaði um það bil fimm kílómetrum frá Montgomery-Gibbs-flugvellinum í San Diego þar sem vélin átti að lenda.
Eins og áður segir er talið að sex manns hafi látist í slysinu en auk þess varð gríðarleg eyðilegging á svæðinu, tíu hús skemmdust og fjöldi bíla brunnu til kaldra kola.
Yasmine Sierra, íbúi í götunni þar sem flugvélin hrapaði, segir í samtali við blaðamenn vestanhafs að hún hafi í fyrstu haldið að um öflugan jarðskjálfta væri að ræða.
„Síðan leit ég út um gluggann og sá að öll húsin í kringum mig voru alelda. Trén voru meira segja að brenna,“ segir Sierra.
Sierra lýsir því hvernig hún kom nágrönnum sínum til bjargar sem voru fastir á bak við háreista girðingu í garði sínum.
„Við sonur minn hoppuðum á trampólíni í garðinum okkar til þess að geta komið stiga yfir girðinguna, við þurftum að skoppa mjög hátt til þess að ná að koma stiganum yfir en það gekk og þeir björguðust,“ segir Sierra.