Verði að byggja á virðingu en ekki hótunum

Maros Sefcovic, viðskiptaráðherra Evrópusambandsins.
Maros Sefcovic, viðskiptaráðherra Evrópusambandsins. AFP/Roslan Rahman

Viðskiptaráðherra Evrópusambandsins segir sambandið ætla sér að ná tollasamningi við Bandaríkin sem byggist á virðingu, ekki hótunum. BBC greinir frá.

Ummæli hans koma í kjölfar hótana Donald Trump Bandaríkjaforseta um að hann ætli að leggja 50 prósent toll á allar innfluttar vörur frá Evrópusambandinu. Þetta kom fram í færslu hans á samfélagsmiðlinum Truth Social í gær. Sagði hann tollana eiga að taka gildi 1. júní næstkomandi. Vill Trump meina að Evrópusambandið sé viljandi að reyna að draga viðræður um tolla á langinn.

Maros Sefcovic viðskiptaráðherra Evrópusambandsins og Jamieson Greer viðskiptaráðherra Bandaríkjanna ræddust við í síma í gær um fyrirætlanir Trump. 

Eftir það símtal sagði Sefcovic að samkomulag um tolla yrði að byggjast á virðingu.

„Viðskiptasamband Evrópusambandsins og Bandaríkjanna er einstakt og verður að byggja á gagnkvæmri virðingu, ekki hótunum,“ er haft eftir honum á BBC.

Ráðamenn í Evrópu bregðast við

Ráðamenn í Evrópu hafa einnig brugðist við hótunum Trump og vara við því að slíkar aðgerðir muni skaða báða aðila.

Michael Martin, forsætisráðherra Írlands, segir samningaviðræður einu raunhæfu leiðina fram á við. 

Laurent Saint-Martin, viðskiptaráðherra Frakklands, tekur í svipaðan streng, en segir Frakka reiðubúna að bregðast við.

Þá segir Katherina Reiche, efnahagsráðherra Þýskalands, að Evrópusambandið verði að gera allt sem í valdi sínu stendur til að ná samkomulagi við Bandaríkin.

Dick Schoof, forsætisráðherra Hollands, segist styðja stefnu sambandsins en bendir á að tollar hafi áður hækkað og lækkað í viðræðum við Bandaríkin.

Viðræður gengið brösuglega

Trump hafði áður lagt 10 prósent toll á allar innfluttar vörur frá Evrópusambandinu, eftir að hafa í apríl boðað enn hærri tolla. Hann gaf hins vegar svigrúm til viðræðna í 90 daga og sá tími er enn ekki liðinn.

Viðræður á milli Banda­ríkj­anna og Evr­ópu­sam­bands­ins hafa gengið brös­ug­lega upp á síðkastið en Evr­ópu­sam­bandið hótaði fyrr í vik­unni að inn­heimta allt að 100 millj­arða evra í toll­um af vör­um frá Banda­ríkj­un­um ef toll­ar yrðu ekki lækkaðir vest­an­hafs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert