Norðurkóresk stjórnvöld fordæmdu í morgun áætlun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um hina svokölluðu „Gullhvelfingu“ og sögðu hana „gríðarlega hættulega“ þar sem hún gæti orðið kveikjan að kjarnorkustríði í geimnum, að sögn ríkisfjölmiðils.
Sérfræðingar segja töluverðar tæknilegar og pólitískar áskoranir fylgja áætluninni og að hún gæti í ofanálag kostað fúlgur fjár.
Í tilkynningu frá ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu (KCNA) segir að utanríkisráðuneytið í höfuðborginni Pyongyang telji áætlunina „gríðarlega hættulega og ógnandi“ og að markmiðið sé að ráðast að hernaðarlegu öryggi ríkja sem búi yfir kjarnorkuvopnum.
Þar segir jafnframt að Bandaríkin séu „staðráðin í að hervæða himingeiminn“ og „gera hann að vígvelli kjarnorkustyrjaldar“.
Trump greindi frá nýjum upplýsingum um verkefnið, þar á meðal fjármögnun þess, í síðustu viku. Til stendur að „Gullhvelfingin“ verði háþróað loftvarnakerfi sem gæti skotið niður eldflaugar af öllum gerðum – jafnvel úr geimnum.
Kínverjar hafa einnig lýst yfir óánægju sinni með áætlunina og saka forsetann um að grafa undan stöðugleika.