Ferðabannið endurspegli „kynþáttafordóma“

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði á miðvikudag forsetaúrskurð sem endurvekur víðtækar …
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði á miðvikudag forsetaúrskurð sem endurvekur víðtækar takmarkanir sem minna á ferðabann hans frá fyrra kjörtímabili. AFP

Íran fordæmdi í dag ferðabann Bandaríkjanna á Írana og borgara ellefu annarra landa, aðallega frá Mið-Austurlöndum og Afríku, og sagði ákvörðun yfirvalda Bandaríkjanna vera merki um „kynþáttafordóma“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði á miðvikudaginn forsetaúrskurð sem endurvekur víðtækar takmarkanir sem minna á ferðabann hans frá fyrra kjörtímabili. Bannið er réttlætt á grundvelli þjóðaröryggis í kjölfar sprengjuárásar á samkomu stuðningsfólks Ísraela í Colorado.

Alireza Hashemi-Raja, embættismaður hjá íranska utanríkisráðuneytisinu, sagði aðgerðina, sem tekur gildi 9. júní, „skýrt merki um kynþáttahatur meðal bandarískra yfirvalda.“

Auk Írans beinist bannið að ríkisborgurum Afganistans, Mjanmar, Tsjad, Kongó-Brazzaville, Miðbaugs-Gíneu, Erítreu, Haítí, Líbíu, Sómalíu, Súdans og Jemen. Bann að hluta til var sett á ferðamenn frá sjö öðrum löndum.

„Brjóta gegn grundvallarreglum alþjóðalaga“ 

Hashemi-Raja sagði stefnuna „brjóta gegn grundvallarreglum alþjóðalaga“ og svipta „100 milljónir manna réttinum til að ferðast, eingöngu á grundvelli þjóðernis þeirra, eða trúar“.

Hann sagði að bannið myndi „hafa í för með sér alþjóðlega ábyrgð fyrir bandarísku ríkisstjórnina“ án þess að útskýra það nánar.

Íran og Bandaríkin slitu stjórnmálasambandi skömmu eftir íslömsku byltinguna árið 1979 og hafa samskiptin þeirra á milli verið mjög stirð síðan.

Heimkynni flestra Írana utan Írans

Bandaríkin eru heimkynni flestra Írana utan Írans. Samkvæmt tölum frá utanríkisráðuneyti Írans voru um 1,5 milljónir Írana í Bandaríkjunum árið 2020.

Fleiri en tíu einstaklingar særðust í árásinni í Colorado. Árásarmaðurinn er egypskur ríkisborgari sem hafði dvalið í Bandaríkjunum sem ferðamaður lengur en vegabréfsáritun hans heimilaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert