Ása fullviss um sakleysi eiginmannsins

Ása Ellerup og börnin hennar Victoria og Christoper.
Ása Ellerup og börnin hennar Victoria og Christoper. Ljósmynd/Gofundme

Ása Ellerup, eiginkona meinta fjöldamorðingjans Rex Heurmann, segir Heuermann vera „hetjuna sína“ og að hún hafi orðið ástfangin af honum upp á nýtt er hún sá hann fyrst á bakvið lás og slá.

Á morgun kemur út ný heimildarþáttaröð á Peacock um Gilgo-morðin, „The Gilgo Beach Killer: House of Secrets“.

Sama ár og Heuermann var handtekinn var greint frá því að Ása hefði skrifað undir samning um gerð þáttanna. Fær hún og börn hennar tvö greitt um eina milljón bandarískra dala fyrir myndina. Upphæðin samsvarar rúmum 126 milljónum íslenskra króna.

New York Post greinir frá því að Ása sé 61 árs gömul og segist í þáttunum fullviss um að lögregla hafi rangan mann í haldi. Eiginmaður hennar sé „dásamlegur“ og hafi ekki orðið vændiskonunum sjö að bana sem hann er ákærður fyrir að myrða á nærri 30 ára tímabili. Heuermann neitar sök.

„Ég veit hvað vondir menn geta gert. Ég hef séð það og heyrt af því frá öðrum mönnum. Ekki eiginmaður minn. Þið eruð með rangan mann.“

Ása sótti um skilnað stuttu eftir að Heuermann var handtekinn. Dóttir þeirra greinir frá því í þáttunum að það hafi verið til þess að „vernda eigur þeirra“. 

Rex Heuermann er ákærður fyrir morðin á sjö konum.
Rex Heuermann er ákærður fyrir morðin á sjö konum. AFP

Vill fá eiginmanninn aftur heim

Ása segist vilja fá eiginmann sinn aftur heim.

„Ég hef enga hugmynd um hvað þeir eru að tala um. „Ó, þú hlýtur að hafa vitað.“ Vitað hvað? Eiginmaðurinn minn var heima. Hann er fjölskyldumaður, punktur.“

Þrátt fyrir sönnunargögn, svo sem lífsýni, er Ása fullviss um að Heuermann sé saklaus. Hár Ásu og dóttur hennar Victoriu fannst meðal annars á einu fórnarlambi. 

„Hann er hetjan mín

Ása kynntist Heuermann þegar hún var 18 ára starfsmaður í 7-11 verslun á Long Island. Þau urðu fljótlega par, þrátt fyrir að vera bæði gift. Þau giftu sig síðar í Svíþjóð árið 1995 og fæddist dóttir þeirra ári síðar. 

Í þáttunum greinir Ása frá því að hún hafi verið misnotuð af bekkjarfélaga er hún var 16 ára, reyndi að fremja sjálfsvíg og neyddist til þess að fela sig í ruslagámi í 19 klukkustundir eftir að reynt var að ræna henni. Heuermann varð því bjargvættur fyrir Ásu. 

Hún sagði hann hafa staðið við hlið hennar í gegnum marga erfiðleika, þar á meðal hafi hún þurft að gangast undir tvöfalt brjóstnám. 

„Hann er hetjan mín,“ segir Ása í þáttunum. 

Frá heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann.
Frá heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann. AFP/Yuki Iwamura

Hringir reglulega

Ása hringir reglulega í eiginmanninn og hefur heimsótt hann. Í þáttunum segist hún hafa verið mjög stressuð að hitta hann í fyrsta sinn, en á sama tíma spennt. 

„Ég hef ekki séð hann í allan þennan tíma, og þegar ég fór þangað var ég spennt,“ segir hún og líkir hittingnum við fyrsta stefnumót. 

Í stiklunni úr þáttunum hér að neðan má meðal annars sjá Ásu hringja í Rex. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert