Eldsvoði í hinu sögufræga norska hóteli Hankø Hotell & Spa, í útjaðri Fredrikstad í Østfold, varð til þess að 49 gestum og fimmtán starfsmönnum var gert að rýma hótelið síðdegis í gær, hvítasunnudag, en hótelið, sem tók til starfa árið 1877 er, eins og nafn þess gefur til kynna, staðsett á lítilli eyju, Hankø,vinsælum sumardvalarstað frá ómunatíð og mikilli náttúruperlu.
„Gestur nokkur kom hlaupandi og sagði að kviknað væri í þakinu,“ segir Helena Andersen sem stóð vaktina í anddyrinu er loganna varð vart.
Beið Andersen ekki boðanna heldur hringdi í neyðarlínu á meðan hún gerði upptöku af brunanum á síma sinn. Fór hún því næst í það ásamt samstarfsfólki sínu að koma tæplega 50 gestum út úr byggingunni og gekk aðgerðin snurðulaust fyrir sig.
Auk slökkviliðs kom norska strandgæslan að slökkvistarfinu á varðskipi, enda mikið í húfi, til dæmis var matsalur hótelsins til sýnis á Heimssýningunni í Mílanó á Ítalíu árið 1906.
„Þetta er skelfilega sorglegt, ég hef verið hér við hótelrekstur í rúmlega 40 ár og aldrei upplifað eins alvarlegt atvik og þetta,“ segir Henning Forsberg, eigandi og stjórnarformaður hótelsins, við norska ríkisútvarpið NRK.
Gekk slökkvistarf fljótt fyrir sig þótt slökkviliðið í Fredrikstad hafi þurft að taka áætlunarferjuna út í Hankø, en fjölmiðlar hafa enn ekki greint frá umfangi þess tjóns sem varð á þessari tæplega 150 ára gömlu byggingu.