ESB leggur til nýjar viðskiptaþvinganir á Rússa

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið (ESB) hefur lagt fram tillögu að nýjum refsiaðgerðum gegn Rússlandi í aðdraganda G7-leiðtogafundarins sem fram fer dagana 15-17. júní í Kanada. Markmiðið er að þrýsta á Kremlverja um að samþykkja skilyrðislaust 30 daga vopnahlé í Úkraínu.

Tillagan felur meðal annars í sér að 22 rússneskir bankar fari á svartan lista og að bannað verði að eiga viðskipti við aðila utan Rússlands sem aðstoða Rússa við að sniðganga viðskiptahindranir sambandsins.

Aðgerðirnar ná meðal annarst til 77 olíuskipa sem sögð eru tilheyra svokölluðum „skuggaflota“ Rússa.

Vonast eftir góðri samstöðu

ESB vill einnig lækka verðþak á rússneskri hráolíu úr 60 í 45 dollara á tunnu og banna innflutning á hreinsuðum olíuvörum frá ríkjum eins og Indlandi og Tyrklandi, sem framleiddar eru úr rússneskri olíu.

Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, vonast til þess að góð samstaða skapist á G7 fundinum líkt og tilfellið hefur verið hingað til.

Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland og Bandaríkin eiga sæti í G7 auk þess sem fulltrúi frá ESB á sæti við borðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert