Aðgerðarsinninn Greta Thunberg er mætt aftur til Svíþjóðar eftir að skútan Madleen, sem hún og ellefu aðrir aðgerðarsinnar voru um borð, var stöðvuð af Ísraelsher.
Skútan var stöðvuð í gær og sigldi í kjölfarið í ísraelska höfn eftir að Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, hafði fyrirskipað hernum að hindra för skútunnar.
Aðspurð hvort hún hefði verið hrædd þegar Ísraelsmenn komu um borð í skútuna sagði Thunberg: „Ég er einungis hrædd við þögnina sem er þegar verið er að fremja þjóðarmorð.“
Farþegum skútunnar var gefinn sá kostur að velja á milli þess að yfirgefa landið sjálfviljugir eða þá að vera dregnir fyrir ísraelska dómstóla.
Thunberg valdi því þann kost að snúa til síns heima, en hún lenti í Stokkhólmi síðla kvölds.